Ferðasögur

Þýskalandsferð 12-19 Oktober 2003


Lionsklúbbur Grundarfjarðar í vínsmökkunarferð til Þýskalands.

 

Það var á fundi í mars 2003 sem ferða- og skemmtinefnd Lionsklúbbs Grundarfjarðar kynnti fyrir okkur félögunum dagsskrá ferðar til Þýskalands 12. - 19. október. Oft áður hafði það borið á góma að gaman væri ef klúbburinn tæki sig saman og ferðaðist út fyrir landsteinana en einhvern vegin höfðu slíkar hugmyndir dagað uppi strax að lokinni umræðu. En nú var Hulda komin í málið og dagskráin lá fyrir í smáatriðum, vínsmökkunarferð hét hún þessi ferð og það var kannski það sem gerði gæfumunin. Ferðanefndin gaf félögum örfáa daga til að skila skráningarblaði í ferðina og viti menn langflestir klúbbfélagar ætluðu með. Þá var ekkert annað eftir en að fara að safna fyrir ferðinni. Í þeim tilgangi tóku Lionsfélagar að sér verkefni af ýmsum toga eins og að elda mat fyrir aldraða, afgreiða á bar á vorgleði, safna dósum og ýmislegt fleira en þó allt innan siðsamlegra marka allt þetta varð að greiðslu upp í ferðina, þá notfærðu margir sér þá leið að leggja mánaðarlega einhverja upphæð inn á reikning og fyrr en varði var komið haust ferðin að fullu greidd og þann 12. október var hópurinn 27 manns mættur snemma dags í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með falunkong lita trefla sem Hulda formaður færði okkur að gjöf til þess að hún týndi okkur ekki í útlöndum..  Það þótti ástæða til að skála fyrir þeim áfanga að vera komin í flugstöðina, en þar sem vínsmökkun var ekki hafin skáluðu flestir í vatni eða næstum þvi. Flogið var síðan rakleitt til Frankfurt undir öruggri flugstjórn Sigga og Dagnýjar, en aðstoðarflugstjórar voru þau Fjóla og Jói. Í Frankfurt tók  fararstjórinn Friðrik G. Friðriksson  á móti hópnum, ásamt bílstjóranum Magnúsi sem ég man ekki hvers son var en hann var ættaður úr Flóanum og þar eru menn yfirleitt Jónssynir. Fararstjórinn Friðrik hlustaði lítið á okkur sem vildum fara og fá okkur bjór eftir langa og stranga flugferð og hvað ekki til setunnar boðið það væri hægt að kaupa bjór hjá Magnúsi og þar við sat.  Eftir að Magnús hafði pakkað  farangrinum okkar í rútuna sína var ekið rakleitt sem  leið lá í áttina í   Móseldalinn. Við stoppum eftir svotla stund sagði Friðrik en tíminn leið góður klukkutími, og þá var loksins  stoppað. Þetta var  fyrsta tækifærið til þess að setjast niður á þýskri grund og kíkja í krús. En svo lá leiðin  auðvitað beint á vínhátíð. Þar var mikil stemming í stóru tjaldi og  gafst okkur nú kostur á því að smakka á vínframleiðslu þessa mikla vínræktarhéraðs, og þarna í tjaldinu beinlínis flæddi hvítvínið ýmist af flöskum eða úr krana. Mér leist ágætlega á það að smakka vínið úr krananum en eitthvað þótti þeim hinum það vera gruggugt og Friðrik hélt því fram að ég yrði veikur af þessum gambra og finndi ekki á mér fyrr en daginn eftir og svo hlóu þau að mér saman hann og víndrottningin,  en það var öðru nær þetta reyndist eðaldrykkur, svolítið sætur en fór fínt í mig. En þá var kominn tími til þess að halda til kvöldverðar í næsta nágrenni við vínhátíðarstaðinn og var haft á orði að við gætum alveg skroppið þangað aftur eftir matinn. En úr því varð ekki af einhverjum ástæðum en maturinn var góður eins sjá má á Edda sem sagðist ekki trúa þessu.  Eftir matinn var haldið syngjandi og spilandi í náttstað í Trier. Trier  er ein elsta borg Þýskalands  með borgarmúr og byggingum frá tímum Rómverja fyrir 2000 árum. En þrátt fyrir það var þarna að finna glæsilegt nýtt hótel og við vorum kát að komast á herbergin mörg hver þó ekki væri nema til þess að senda SMS.  Næsta dag var  farið í rútunni okkar til Bernkastel. Þennan dag vildi það svo vel til að einn í hópnum, Lionsfélaginn Friðgeir varð 60 ára. Honum voru færðar gjafir frá ferðafélögunum og það átti eftir að koma ljós að Friðgeir var ánægður með gjöfina. Hulda formaður var svo glöð með að fá að færa honum gjöfina að hún vissi varla hvernig hún átti að handleika vibratorinn, eins og hún sagði en átti að sjálfsögðu við míkrafóninn en Friðgeir brosti blítt og leit til himins. Þegar komið var til Bernkastel var svolítill tími til að skoða sig um og dáðust margir að skrautlegum húsum og sumum skökkum og Ragnar Haralds vindmilluaðdáandi var yfir sig hrifinn. Afmælisbarnið rölti um bæinn og  fékk sér eitthvert lítilræði á veitingarhúsi ég fylgdi honum í von um að hann tæki upp koníaksflöskuna.  En múrarinn var ekkert að spá þetta, horfði dolfallin á svan nokkurn sem hann sá á sprangi á árbakkanum og reyndi að koma sér í mjúkin hjá honum hefur líklega langað í svanakjöt. En þá var komið að siglingu  niður eftir fljótinu Mósel. Hópurinn snaraðist um borð í ferju þar sem hægt var kaupa hvítvín á bláum flöskum og svo bjór auðvitað. Meðan siglt var eftir lygnri Móselánni dáðist fólk að umhverfinu endalausum vínekrum í sólríkum hlíðum og fékk vatn í munnin og skolaði því niður með hvítvíninu. Allir nema Fjóla. Njáll hafði hins vegar hugann við kortið þar til hann fór að velta því fyrir sér hvernig hægt að væri að rækta vínvið í klettum tóku margir undir þá undrun. Siglt var um stórmerkilegan skipastiga að smábæ einum þar sem vínbóndi, gamall vinur Friðriks tók á móti okkur og sýndi hvernig vínið væri framleitt . Sumum þótti ekki þrifalegt í kringum þessa framleiðslu en vínbóndinn fullvissaði okkur að hreinlætið væri á hæfilegu stigi til þess að víngerðin næði hámarksárangri. Og það fannst okkur líka þegar við fórum að smakka á framleiðslu bóndans og Friðrik kenndi okkur að halda á glasinu þannig að við findum ekki lykt af lúkunum.  Sigga leist hins vegar ekkert á ef að kertaljósið færi nú að slokna því nýbúið var að fræða okkur á því ef það gerðist skildu allir hlaupa út en Móses kippti sér ekki upp við svoleiðis smámuni. Þó nokkrir í hópnum höfðu á orði úti undir vegg að gaman væri að gerast vínbóndi þarna ytra en Móa leist ekkert á það,  Friðrik fræddi okkur á því að það væri ekki hlaupið að því að ná sér í skika og hópurinn hlustaði hugfanginn. En svo var komið að því að fá sér að borða enda Gunni búinn að vera svangur síðan hann sá svaninn. Þá var komið að þætti afmælisbarnsins sem hefði ekki getað boðið okkur uppá vín með matnum  ef það ekki hefði lifað svona lengi staðhæfði Njáll og leit á Pálínu. Margir fluttu þakkar og afmælisræður en aðrir supu drjúgt.   Á þriðja degi var frjáls dagur í Trier sem fólk notaði til þess að skoða borgina rölta í verslanir og kíkja á öldurhús en um kvöldið var söngskemmtun í lobbíinu þar spilaði undirritaður undir fjöldasöng og flutti varamál með Fjólu en Eddi og Rúnar fengu að taka í í  pásu .

Til Freiborgar.

Trier var kvödd með nokkrum söknuði sérstaklega hótelið sem var nánast alveg nýtt og stórglæsilegt, þar hafði verið gott að vera, kvöldvökur, gítarspil og söngur á hverju köldi. Áður en við ókum út úr borginni var keyrt upp í hæðir við borgina og þaðan mátti sjá niður á fornan rómverskan leikvang þar sem til forna mönnum var att gegn óargadýrum Móses varð ekki um sel við tilhugsunina um harmleikinn og meðan Jóna leiddi hann bugaðan í burtu  dáðist  Dóra að vínberjunum. En Freiburg í Svartaskógi var næsti áfangastaður  og þangað var komið seinnipart dags. Friðrik farastjóra þótti ástæða til þess að vara okkur við því að hótelið sem við myndum gista á til loka ferðarinnar væri ekki í sama klassa og hið fyrra í Trier þar hefðum við verið sérstaklega heppin vegna þess að um kynningarátak hefði verið að ræða. Við minntumst lobbýsins með trega. En þar sem við vorum vel undirbúin voru flestir ánægðir þegar inn kom en sumir fengu víst aldrei neinn hita á herbergin sín annan en líkamshita. Um kvöldið var rölt niður á Kínverskan veitingastað þar sem snædd var Pekingönd og ís á eftir svo ánægðir voru menn með matinn að tilhlýðilegt þótti að syngja fyrir gestgjafana, Pálmari þótti þó öruggara að vera þeirra megin ef þeim skyldi ekki líka söngurinn. Það var kominn fimmtudagur 16. október og sá dagur var notaður til að aka um Svartaskóg þar sem meðal annars var ekið fram hjá stöðuvatni einu í  stórum dal og ofan i þessu stöðuvatni var víst að finna heilt þorp sem sökkt hafði verið vegna virkjunarframkvæmda. En á leiðinn var stoppað í frægu heilsuþorpi og borðaðar rjómakökur.  Daginn eftir var haldið yfir landamærin til Frakklands í Elsasshérað þar sem við heimsóttum víngerðarverksmiðju sem starfaði í sönnum  kaupfélagsanda. Vínræktarbændur hundruðum saman koma þar með vínberin sín og leggja inn í verksmiðjuna. Þarna var allt mjög stórt í sniðum og ekki virtist hreinlætið þarna hafa áhrif á bragðið því hvítvínið smakkaðist mjög vel.

 

 

Reyndar komu margir af fjöllum þegar smökkunin byrjaði töldu að úr því við værum komin til Frakklands fengjum við að smakka rauðvín og ein ágæt Lionskona í hópnum var svo sannfærð að hún sagði stundarhátt þegar hún horfði á vínið í staupinu hjá sér, " ja hérna er rauðvínið svona ljóst hérna".  En ámurnar þarna þóttu tilkomumiklar verst hvað það var erfitt að þrífa þær. Á eftir var rölt um í nágrenni Kaupfélagsins um þröngar götu sem lá í hring. Næsti dagur var frjáls í Freiburg og notuðu þá sumir tækifærið til að kíkja á Lionsfund, aðrir fóru með kláfferju upp í fjall og fengursér öl en eftir ein þá aki ei neinn í kláfferju sögðu þeir félagar og gengu niður . Seinnipart dags var síðan komið að því að halda Íslendingadag. Var þá ekið af stað áleiðis upp á fjall í nágrenninu sem á íslensku var kallað Keisarastóllinn. Þegar upp var komið voru dregnar fram rammíslenskar kræsingar, harðfiskur og hákarl sem Njáll hafði sært út út frænda sínum í Bjarnarhöfn fyrir eitthvert smáræði og smiglað síðan í farangri sínum til Þýskalands og auðvitað fengum við  íslenskt brennivín með þessu sem þau höfðu komið með  Kristján og Hulda en Olga bauð upp á sherrý.  Á bílaplani í efstu hlíðum Keisarastólsins var kræsingunum hlaðið á borð og þegar ferðanefndin hafði sagt gjörið svo vel ruddist hópurinn á jötuna. Var þarna skálað fyrir einstaklega vel hepnaðri ferð síðan tekin hópmynd og þar á eftir  ekið til kvöldverðar í nágrenninu. Sem jafnframt var síðasta kvöldmáltíðin í þessari paradís. Menn voru í besta skapi eftir góðan dag og settus glaðir niður til kvöldverðar nema Friðrik sem þótti erfitt að sitja kyrr. Þegar hópurinn hafði etið og drukkið af hjartans list kom upp ræðuþörf hjá einstaka manni og þar hældi Njáll öllum nema Móa. Og Magnús bílstjóri sagði einn af sínum ágætu bröndurum. Hulda þakkaði vertinum fyrir matinn og afhenti honum fána og hann varð svo glaður að hann lét sem hann ætlaði kissa Huldu sem beið spennt eftir kossinum. En þetta var bara plat.  Eftir kvöldverðinn fór hópurinn sem kominn var í góðan gír saman á vínhátíð í næsta nágrenni en þar var heil hljómsveit í einum skemmtara og þýskarinn sem á hann spilaði  söng með af hjartans list fyrir Huldu og okkur hin.. Fannst þá fólki tími til kominn að bregða undir sig dansfótum um stund og drekka svolítið hvítvín og nú var komið að Smára að splæsa víni á hópinn leist Huldu vel á það.  Um síðir var ekið heim á hótel og morguninn eftir var ekið áleiðis til Frankfurt og síðan flogið heim á ný eftir nokkra bið í flugstöðinni þar sem fékkst hvorki vott né þurrt af því að það var sunnudagur.. Það var samdóma álit félaga að þessi ferð hefði heppnast einstaklega vel og þjappað hópnum  vel saman. Margt fleira hefði mátt skrifa eins og um ætleiðingar og afspyrnu góðar verslunarferðir en hér verður látið staðar numið.



Skotlandsferð 22. - 25 sept. 2005

 

Það var fimmtudagsmorguninn 22. september fyrir allar aldir, sem hópur félaga úr Lionsklúbbnum í Grundarfirði var saman kominn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ekki man ég hve margir líklega nálægt 26 manns. Í annað sinn á tveimur árum lá leið klúbbsins út fyrir landsteinana. Í þetta sinn skyldi flogið til Glasgow en förinni var heitið í helgarferð í  skosku hálöndin. Segir nú fátt af för hópsins fyrr en komið var á skoska grund og kom þá fararstjórinn Guðmundur  í  ljós öllum að óvörum og hafði hann þá verið með í för frá Íslandi án þess að nokkur vissi.  Fékk hann fljótlega nafnið Guðmundur hinn góði.   Ekki fannst honum hægt að fara út úr Glasgowborg nema konur fengju fyrst að kíkja í búðir. Þvældi hann því hópnum niður í miðborg og var hópnum hent þar út og sagt að koma aftur kl. 16.00 í síðasta lagi. Þar sem nú leið senn að hádegi var matur efst í huga flestra amk. karlanna og eftir að hafa rambað eftir leiðsögn Guðmundar inn í  moll eitt mikið sem hann kvað vera fyrirmynd Smáralindarinnar var ljóst orðið að engan í þeim hópnum langaði að versla.  Þá var bara að finna bar. Og hann fannst fljótlega og ölið var glimrandi gott. Ég komst fljótlega upp á lag með að kaupa alltaf stóran bjór fyrir tengdamömmu því ég fann út  að hún bætti alltaf  í mitt glas því sem hún ekki torgaði.  Fljótlega fundu fleiri staðinn og það myndaðist ágæt stemming.  En tíminn leið og brátt var haldið af stað frá Glasgow og þótt fæstir þættust ætla að versla sást þó ein og ein kona með hátískumerktan burðarpoka. Leiðin lá nú til Oban þar sem samkvæmt ferðagögnum átti að halda til á Argyll Hóteli næstu þrjár nætur Guðmundur góði upplýsti hinsvegar að skipt hefðir verið um hótel og við auðvitað sett á Royal Hotel. Með í kaupunum var kvöldverður næstu þrjú kvöld. Maturinn var svo sem ágætur en það var nánast sama kvað hann hét hann var yfirleitt allur með sama bragðinu. En það bjargaði málum að hægt var að fá sér vín með matnum. Umhverfið í Oban var hið fallegasta stutt niður að höfninni, og uppi á hæð hafði einhver bjrálaður ríkisbubbi byggt sér kastalavirki fyrir margt löngu. Ekki gafst þó mikill tími til að skoða borgina í björtu því stöðugar rútuferðir  með bílstjóra og farastjóra um nágrennið leiddu til þess að oftast voru við í borginni í myrkri. Á föstudagsmorgunin var haldið í enn eina rútuferðina sömu leið og við komum daginn áður og þeirri ferð bar fátt eitt til tíðinda annað en að við sáum naut eitt mikið sem allir voru heillaðir af. Síðan var haldið þangað sem flesta Wiský unnendur hafði hlakkað til að koma þ.e. í verskmiðju sem framleiddi Famous Grouse sem má þýða sem fræga rjúpan, þar tók geðþekk og elskuleg stúlka á móti hópnum og bannaði síðan öllu að taka myndir innan dyra, líklega verið hætta á því að við næðum einhverjum uppskriftum á mynd. Útskýrði hún fyrir áhugasömum hópnum hvernig styrkleiki og skattastig færu saman og Guðmundur góði kom þessu öllu yfirleitt rétt til skila. Á eftir leiðsögn um verksmiðjuna var loksins boðið smakk.  Erfitt reyndist eftir það að ná hópmynd af félögum því nú tvístraðist hópurinn um allt. Sumir vildu versla minjagripi meðan aðrir fengu sér smók og enn aðrir í hjólastólarally. Þetta var nú ekki af því að mikið hefði verið drukkið heldur líklega hafði veðrið þessi góðu áhrif á fólk. Aftur var haldið á Hótelið og í kvöldverð og eftir það settust menn niður á barinn sumir lentu þar í góðum hópi skoskra eldriborgara á meðan aðrir tóku púlsin á bæjarbragnum að kvöldi til. Árla næsta morgun var síðan haldið í rútuferð upp í hin eiginlegu skosku hálönd keyrt var stanslaust yfir heiði sem svipaði til smalalanda á norðlenskum heiðum uns komið var að nýlegu hálandasafni sem leit ellilega út og hafði ég þá lært það í skosku að glenn þýddi dalur og Loch þýddi fjörður. Þar sem tíminn var naumur var látið nægja að skoða líkan af skosku hálöndunum í stað þess að rölta um þau. Eftir stutt hressingarstopp á safni þessu var haldið niður glennið og fram með einhverju Lochi í bæ einn þar sem gerður var góður stans í þokkalegasta veðri. Sumir röltu í búðir aðrir skoðuðu byggingar enn aðrir létu sér nægja að setjast á bekk og fá sér öl úr flösku. Var síðan haldið heim á leið og bar margt fyrir augu á heimleiðinni sem gaman hefði verið að festa á filmu eða öllu heldur kubb en rúðan var á milli svo árangurinn var ekki sem skildi, en þó þessar myndir séu nokkuðu móðukenndar þá rifjar þetta upp ferðina  heim þennan laugardag.  Um kvöldið lentum við á bráskemmtilegu þjóðarkvöldi þar sem  börn sýndu skoskan dans og þar var auðvitað mættur glæsilegur sekkjapípuleikari og Kristín Soffa gerðist svo djörf að fá að dansa við gripinn enda hafði hún þar með unnið veðmál. Árla næsta morgun var síðan haldið heim á leið á ný


Póllandsferð 2008.

Undirbúningur undir ferðina hafði staðið nánast frá síðustu ferð klúbbsins í skosku hálöndin eða allavega frá því að Þórður og Dóra gengu í klúbbinn því það varð fljótlega mikið áhugamál klúbbfélaga að fá þau hjónin til þess að skipuleggja ferð til Póllands. Eftir frekar rólega byrjun í undirbúningi og nokkuð karp um heppilegasta tímann var ákveðið eftir skoðunarkönnun meðal félaga  að besti tíminn væri fljótlega eftir að öllu grunnskólastússi væri lokið snemma sumars og að endingu var tímasetning komin 13. - 20. Júní 2008.   Þau Þórður og Dóra tóku hlutverk sitt alvarlega mjög og fóru að minnsta kosti 4 ferðir  út Póllands til undirbúa heimsókn okkar.  Þegar brottfarardagur nálgaðist varð ljóst að ekki kæmust allir með í ferðina enda tíminn alveg ómögulegur að mati sumra. Þrátt fyrir það tókst um 20 manns að komast í gegnum bókunarleiðir Þórðar á netinu og flestir og ég held allir sem ætluðu í ferðina gátu prentað út pappíra til þess að komast í flugið.  Hinir urðu eftir heima og misstu því af miklu eins og brátt verður að vikið.

Fyrstir á vetvang í flugstöðina eldsnemma morgnuns voru að vanda Runkararnir með sínar konur  og Móa. Það voru reyndar áhöld um hvort Mói  kæmist í gegnum innritun og tollskoðun þegar starfsfólkið sá útlitið á Dóru Haralds sem sagðist hafa dottið á bryggjunni í Grundarfirði og væri þess vegna með svona mikið glóðarauga. En allir mættu ferðafélagarnir  á réttum tíma og ég man ekki ekki hverjir komu síðastir, en líkleg þó Rúnar og Kristín. 

Fyrsti áfangi var De Gaul flugvöllurinn í  Frakklandi en þar skildi skipt um vél og farið í eina pólska.  Það var samdóma álit ferðafélaganna að þvílíka villu flugstöð hefði enginn komið í fyrr voru þó margir flughundar í hópnum.  Sem betur fer var dágóður tími til stefnu þar til flugið til Pólands legði af stað og því hægt að leyfa sér ferðalög um rúllustiga til  að reyna að finna þann brottfarargang sem líklegastur væri, enginn kunni frönsku að neinu gagni og ensku skildi varla nokkur starfsmaður.  En fyrir rest fundum við staðinn og Fjóla var hvíldinni feginn sérstaklega þegar uppgötvaðist að hún sat í nuddstól.

Flugið til Póllands gekk fljótt og vel og ljóst þegar þangað var komið hver væri helsti tilgangur ferðarinnar. (SKÁL= Krús)

Eftir örstutta bið við flugstöðin var móttökunefnd frá Pólsku ferðaskrifstofunni Anatlek,  sem þau Dóra og Þórður eiga líklega, mætt og við þreyttir ferðalangar komust að því að í Póllandi  er siður að taka á móti gestum með heimabökuðu brauði, kryddi og hundi.  Síðan lá leiðin heim á hótel Mikatoj í Krakow .  Eftir að búið var innrita og koma öllum upp tröppurnar á sín herbergi var haldið í smá gönguferð til að kanna nærumhverfið segir ekki meira af því en rétt að halda því til haga að Krakow getur verið villugjörn  þótt búið sé að fara í grendarkynningu.

Næsta dag var síðan haldið í alvörugöngutúr með leiðsögumanni um helstu sögustaði í miðborginni.  Leiðsögumaðurinn sem talaði á ensku var fræðandi og tók öðru hvoru smá prufu á eftirtekt hópsins var þá Eddi jafnan fyrstur til svars og eftir að hafa ráðfært mig við Edda þá mun þetta hafa verið meðal þess sem fram kom hjá okkar ágæta leiðsögumanni: Kraká sem er í suður Póllandi, mun vera meðal elstu borga landsins. Samkvæmt þjóðsögunni hófst bygging hennar í tengslum við kastala í kringum aldamótin 700.  Á 12. öld varð hún höfuðborg konungsdæmisins Póllands og mikilvæg viðskiptamiðstöð.  Tatarar gerðu innrás í Kraká árið 1241 og lögðu hana í rústir.  Þýzkir innflytjendur endurbyggðu borgina síðar.  Árið 1430 varð hún Hansaborg.  Árið 1794, á tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar, varð Kraká miðstöð byltingarinnar, sem Kosciusko leiddi, og árið 1795 lagði Austurríki hana undir sig.  Fjórtán árum síðar innlimaði Napóleon borgina í hertogadæmið Varsjá.  Eftir fall Napóleons gerði austurríska þingið hana að höfuðborg hins sjálfstæða lýðveldis Kraká.  Þetta lýðveldi var innlimað í Austurríki árið 1846.  Árið 1914 var borgin vettvangur mikilla bardaga milli þýzk-austurrískra og rússneskra herja.  Eftir fyrri heimsstyrjöldina varð Kraká aftur pólsk.  Í síðari heimsstyrjöldinni hersátu Þjóðverjar hana til 1945, þegar sovézkar hersveitir náðu henni á sitt vald.

Eins og í flestum gömlum borgum voru leifar af borgarmúr að finna, sömuleiði mikla turna þar sem varðmenn höfðust við og blésu í lúður ef til óvina sást, enn þann dag í dag er blásið í lúður í turni Maríukirkjunnar út um glugga í allar áttir en í einum glugganum þagnar lúðrablásturinn skyndilega til að minna á þann atburð þegar ör hitti varðmanninn í hjartastað.  Fyrrum samgöngumiðstöð við aðaltorgið er nú mikið kolaport. Þrátt fyrir að leiðsögumaðurinn þyrfti að drífa sig gafst af og til tækifæri til að setjast niður og fá sér öl.  Við innganginn að Tækniháskólanum í Kraków beið hópurinn í ofvæni eftir því hvað gerast myndi er klukkan kæmist á heila tímann og viti menn þá birtust fyrrum andansmenn í einni röð. Og í háskólagarðinum var klappað í öllum hornum því það voru fleiri túristar en við á ferðinni.

Nokkru síðar var reynt að ná mynd af hópnum en það tókst ekki sem skildi, leiðsögumaðurinn kraup, páfinn vinkaði og einn aðkomumaður uppgötvaði að hann ætti ekki að vera með á myndinni. Að lokum var skoðað kastalavirki eitt mikið sem notað var til að verjast til síðasta manns í einhverri innrásinni líklega 1795.  Þar var hægt að komast á klósett mörgum konum í hópnum til mikils léttis en karlarnir settust niður og fengu sér öl í boði Rúnars Magg.

Á eftir fóru fram gagnlegar umræður um mismunandi turnþök á kapellum tveimur er stóðu í katalagarðinum kopar eða gull þök, en leiðsögumaðurinn hvað þetta vera mælikvarða á kreppu og góðæri. Þarna hefðum við átt að kveikja og sleppa því að leita upp þetta víðfræga Mall þeirra í Krakow.

Þriðji dagur ferðarinnar var runninn upp og að venju hófst hann á veglegum morgunverði í kjallara hótelsins, einskonar neðanjarðarbirgi, sem var þó hið vistlegasta og ekki spillti úrval kræsinganna fyrir. Við komumst að því að majónes skipar stóran sess í morgunverðinum hjá Pólverju, en allir fundu þó eitthvað við sitt hæfi. AÐ morgunverði loknum var haldið af stað í skoðunarferð og fyrst var förinni heitið í Saltnámurnar víðfrægu sem byrjað var vinna salt úr á 13. öld. Þar var talið vænlegast vegna mikils ferðamannaflaums að senda fólk gangandi niður en í lyftu upp. Ég taldi tröppurnar og þær reyndust vera 386.  Og við fórum um 100 metra niður í jörðina. Niðri var loftið svalt og salt og það var okkur sagt að allur viður entist að eilífu í þessu salta loftslagi.  Þegar niður var komið var gengið um miklar hvelfingar og víða mátti sjá miki listaverk námumanna sem höggin voru í salt.  Í stærsta salnum var heil kirkja með miklum ljósakrónum útskornum úr salti var okkur sagt og það hafði tekið tvo menn heilan mannsaldur að gera þessa hvelfingu sem nú væri mjög vinsæl orðin til giftingarathafna.  Enginn í hópnum var í giftingahugleiðingum svo áfram var haldið um neðanjarðarhvelfingarnar þar sem sjá mátti mynjar forna vinnsluhátta sem fyrst byggðust eingöngu á mannahöndum en síðar meir voru hestar látnir létta mönnum störfin og jafnvel íslenskir hestar munu hafa verið notaðir í námunum.

Var nú komið að uppgöngu og gömlu námulyfturnar biðu okkar. Fyrst fóru þeir sem voru orðnir óþolinmóðir að komast út undir bert loft, en furðufljótt komst hinn hópurinn inn í lyftuna. Þegar upp var komið hjá seinni hópnum kom í ljós að á þessu var ákveðið kerfi þeir sem fóru á undan fóru uppfyrir  og biðu þar til við í neðri lyftunni vorum komin út, þá var slakað niður og þeir óþolinmóðu komu hlæjandi út. Á eftir var etin  súpa ein mikil og rauð á litinn sem fáir gátu borðað nema undirritaður sem var alinn upp við að borða það sem borið væri á borð.

Síðan Auswitz.

Það er líklega hverjum manni holt að skoða þessar menjar um það hversu mannskepnan getur verið ólýsanlega grimm, en það voru blendnar tilfinningar sem bærðust með fólki þegar komið var í þessar illræmdu útrýmingabúðir Nasista.  Sem betur fer skein sól í heiði og bílstjórinn hafði verið svo hugulsamur að sýna kynningarmyndband í rútunni á leiðinni að búðunum svo við vorum betur andlega undirbúin.  Þarna röltum við um svæðið og byggingarnar þangað  sem saklausu fólk af gyðingaættum hafði verið smalað saman til undir yfirskyni um nýtt og betra líf en hlaut í þess stað ömurleg örlög.  Við látum hér nokkrar myndir rúlla frá þessum illræmda stað en snúum okkur svo að einhverju skemmtilegra. 

Dagur fjögur.

Eftir morgunmat var lagt af stað til fjallahérðsins Sakopane sem er syðst í Póllandi.  Á leiðinni fundu menn og konur eða konur og menn,  hjá sér þörf til að stoppa og sýna sig svolítið.  En svo var komið á áfangastað og gistingin sem fannst að lokum, var í þessu fína fjallamódeli eða   einskonar bændagistingu.  Það var hugur í fólki að skoða sig um á þessum nýja stað og hópurinn tvístraðist um stræti og torg. Flestir voru í skoðunarhugleiðingum en aðrir fegnu kaupæði. Það var fagurt um að litast í bænum og fjallstindarnir minntu á heimabyggðina.  Og enn varð útsýnið fegra við þessa sýn. Að kvöldi voru veitingastaðir skoðaðir og kepptust sumir við að panta líkt og spiluð væri rúsnessk rúlletta,  slík var spennan eftir hvað borið væri fram.   Daginn eftir var vaknað snemma því halda skyldi upp í fjallstindanna.  Eddi var brattur og vildi  sýna afhverju hans góða heilsa stafaði og eftir það var haldið á fjallið.  Jói formaður var ábúðarfullur í kláfferjunni en þó  var hann nýbúinn að fá upplýsingar um að allt kramið væri tiltölulega nýtt.  Á leiðinni upp naut fólk útsýnisins til fulls og þegar upp var komið var hægt að komast enn hærra og þangað fór ég að sjálfsögðu þegar gaf fyrir þoku.  Þegar ég og Jóhanna mín höfðum komist á toppinn var að sjálfsögðu haldið niður á leið aftur.  Og nú fannst Jóa rétt að halda sér. Þegar niður á jafnsléttu var komið lenti Þórður í  viðtali við Pólska ríkissjónvarpið  og lýsti þar fjálglega  hve allt væri orðið óheyrilega dýrt í Póllandi miðað við áður.  Fjallaloftið gerði flesta svanga svo rölt var niður í bæinn og leitað fanga á veitingastöðunum þ.e. matfanga.  Þar fann Diddi snitsel aldrei þessu vant, Jóhönnu leist vel á ostana pólsku en Mói var spenntur fyrir graut í skál. Um kvöldið var lýðveldisdegi Íslendinga fagnað með bravör í sameiginlegum kvöldverði á fjallamódelinu. Veigar með mat voru í boði Grun. Hf. og þakkaði karlpeningurinn fyrir sig með kröftugum söng að hætti sannra karlmanna.

Kominn var nýr dagur og það var sá 6 í ferðinni og nú var aftur haldið til Kraká, það sem helst bar til tíðinda þegar litið var út um gluggann á leiðinni að bændur voru farnir að þurrka hey sitt en eitthvað voru vinnubrögðinn önnur en á Íslandi þegar ég var að alast upp. Dagurinn fór að mestu í heimferðina til Kraká en þegar þangað var komið var rétt tími til að kíkja á nokkrar krár og svo veitingahús fyrir svefninn.  Sumir karlanna notuðu líka tímann til að fylgjast með fótboltanum á EM  sem var í  hámarki þennan tíma en af einhverjum ástæðum þótti mér það ekki myndaefni. Þegar farið var út að borða var oftast hópferð þ.e. gangandi og gilti algjört lýðræði um hvaða staður var valinn að lokum. Við komumst að því að ekki skipti neinu máli hvaða veitingastaður varð fyrir valinu því allstaðar var úrvals mat að finna.  Rúnar var alltaf til í stórsteikur og stundum fékk Eddi að smakka.

Sjöundi og síðasti dagur ferðarinnar var runninn upp 19. júní  þessi dagur var algjörlega  frjáls

Við Jóhanna röltum um og reyndum að teyga í okkur pólska borgarloftið, við miðbæjartorgið voru hermenn að störfum að undirbúa herlúðrasveitarsamkomu sem vera átti um kvöldið. Þetta höfuð var eitt af mörgum listaverkum sem prýddu miðborgina tákn um valdabaráttu fyrri tíma.  Það var ákaflega vinsælt hjá sumum ferðafélaganna að ferðast um miðbæinn í listivagni sem þessum og smellti ég mynd af þessum hópi þegar hann kom þriðja hringinn. Gamlar en fallegar byggingar urðu á vegi okkur á rölti okkar um bæinn sem og blómum prýddir garðar, viðgerðarmenn í múrverki vöktu athygli okkar og sáum við strax að múrarinn hefði misst af miklu að vera ekki með í þessari ferð. Um kvöldið var úrslitaleikur á EM og þar sem búast mátti við pústrum skildi ég myndavélina eftir heima á Hóteli og treysti á að Smári myndi koma með sína sem og hann gerði enda hefur hann aldrei óttast slagsmál en viti menn þegar ég ætlaði að nálgast myndir hjá honum fyrir þetta kúttmagakvöld kom á daginn að tölvan sem myndirnar voru settar inn í eftir heimkomuna hafði krassað skömmu síðar og allar hanns myndir því glataðar að eilífu.

Að morgni 20.júni var síðan lagt af stað heimleiðis á ný  Pólland kvatt með söknuði og farin sama leið til baka  til Frakklands þar sem kom í ljós að allt var lokað í fríhöfninni af því að það var sunnudagur en þegar menn sáu grilla í Flugleiðavélina voru menn vissir um að komast heim á ný.