Lög félagsins
Lög Fjölumdæmis 109 og reglugerðir helstu sjóða
Samþykkt á fjölumdæmisþingi á Akureyri 1998, breytt í Reykjavík 1999 og 2001, breytt í Reykjanesbæ 2002, breytt í Hafnarfirði 2003.
FJÖLUMDÆMI
1.gr.
Allir Lionsklúbbar á Íslandi, sem hlotið hafa staðfestingu Alþjóðasambands Lionsklúbba, hér eftir í lögum þessum nefnt Alþjóðasambandið, bindast samtökum í Lionsfjölumdæmi 109, hér eftir nefnt Fjölumdæmi 109. Fjölumdæmi 109 hlítir lögum og samþykktum Alþjóðasambandsins, sem eru bindandi fyrir alla Lionsklúbba.
2.gr.
Félagsréttindi í Lionsklúbbi geta verið á 7 mismunandi vegu:
1. Virkur félagi. (Active Member) Virkur félagi hefur öll réttindi og skyldur sem tilheyra því að vera félagi í Lionsklúbbi. Hann er kjörgengur í öll embætti klúbbsins, umdæmisins og fjölumdæmisins, svo fremi að hann hafi löngun og getu til þess, ásamt atkvæðisrétti þegar þess er krafist.
Skyldurnar fela í sér mætingarskyldu, greiðslu á félagsgjöldum á réttum tíma, þátttöku í verkefnum og að koma fram eins og sannur Lionsfélagi. Allir virkir félagar eiga að greiða þau félagsgjöld sem klúbburinn ákveður, en þar skulu vera meðtalin gjöld til fjölumdæmis og Alþjóðasambandsins.
2. Aukafélagi. (Member at large) Félagi sem af heilsufarsástæðum, vegna brottflutnings eða af öðrum gildum ástæðum getur ekki sótt klúbbfundi, getur fengið fjarvistarleyfi frá stjórn klúbbsins í 6 mánuði í einu. Aukafélagi hefur ekki kjörgengi til embætta né atkvæðisrétt. Hann er þó skyldugur til að greiða þau gjöld sem stjórn klúbbsins ákveður hverju sinni, þar með talin gjöld til fjölumdæmis og Alþjóðasambandsins.
3. Heiðursfélagi. (Honorary Member) Heiðursfélagi er ekki félagi í klúbbnum heldur einstaklingur sem hefur unnið vel fyrir samfélagið eða klúbbinn og klúbburinn heiðrar á þennan hátt.
Klúbburinn greiðir inntökugjöld fyrir heiðursfélagann ásamt gjöldum til fjölumdæmis og Alþjóðasambandsins.
Heiðursfélaginn hefur þá tækifæri til að sækja klúbbfundi en hefur ekki sömu réttindi og virkur félagi.
4. Sérréttindafélagi (Privileged Member) Sérréttindafélagi getur sá orðið sem hefur verið félagi í a.m.k. 15 ár, en vegna heilsubrests eða aldurs getur stjórnin veitt honum þessi réttindi.
Sérréttindafélaginn greiðir þau gjöld sem stjórnin ákveður hverju sinni, þar með talin gjöld til fjölumdæmis og Alþjóðasambandsins og hefur öll réttindi sem í því felast, nema að vera útilokaður frá setu í stjórn klúbbsins, umdæmisins eða fjölumdæmisins.
5. Ævifélagi. (Life Member) Ævifélagar geta þeir orðið sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
Hafa verið virkir félagar í a.m.k. 20 ár og lagt vel af mörkum til klúbbsins, hreyfingarinnar eða þjóðfélagsins
Félagar, sem hafa verið virkir í a.m.k. 15 ár og náð 70 ára aldri.
Félagar sem eiga við alvarleg veikindi að stríða
Félagar sem hafa gegnt embætti umdæmisstjóra, eða embætti á vegum Alþjóðasambandsins og verið félagar í a.m.k. 20 ár.
Ævifélagi hefur öll sömu réttindi og virkur félagi. Það ber einnig að greiða fyrir hann lögskipuð árgjöld til fjölumdæmisins og eingreiðslu til Alþjóðasambandsins (31.3.98 = 300$) og skipti hann um klúbb, skal hvorki nýi klúbburinn né félaginn greiða gjöldin til Alþjóðasambandsins.
6. Gestafélagi. (Associate Member) Ef lionsfélagi þarf að flytjast tímabundið á milli staða og á nýja staðnum er Lionsklúbbur getur stjórn þess klúbbs boðið honum gestaaðild. Sá Lionsklúbbur er veitir lionsfélaga gestaaðild má ekki skrá hann sem félaga gagnvart Alþjóðasambandinu.
7. Stuðningsfélagi. (Affiliate Member) Stuðningsfélagi hefur sömu stöðu innan klúbbsins eins og virkur félagi, nema hann er undanþeginn mætingarskyldu og má ekki gegna stjórnunarembættum í klúbbnum né koma fram fyrir hönd klúbbsins á umdæmis/fjölumdæmisþingum. . Hann hefur atkvæðisrétt á fundum um málefni er snerta klúbbinn beint. Hann greiðir öll lögskipuð gjöld, og önnur gjöld sem klúbburinn ákveður.
Fyrrverandi félagi (Re-instated Member), sem hætt hefur skuldlaus, getur fengið allan fyrri feril sinn innan hreyfingarinnar viðurkenndan þegar hann gengur aftur inn í hreyfinguna. Fylla þarf út sérstakt eyðublað þegar fyrrverandi félagi gengur á ný inn í Lionshreyfinguna.
Fyrrum Leo- og Lionessufélagar sem ganga inn í Lionsklúbb fá einnig allan fyrri feril sinn viðurkenndann.
3.gr.
Fjölumdæmi 109 nær yfir Ísland. Fjölumdæmið skiptist í 2 umdæmi 109 A og 109 B og svæði. Fjölumdæmisþing ákveður skipan umdæma, enda hljóti sú skipan samþykki Alþjóðasambandsins.
4.gr.
Fjölumdæmisþing fer með æðsta vald í Fjölumdæmi 109, með þeim takmörkunum sem felast í l.gr. þessara laga. Fjölumdæmisráð fer með æðstu stjórn Fjölumdæmis 109 og ber ábyrgð gagnvart fjölumdæmisþingi.
5.gr.
A. Fjölumdæmisráð skipa:
a. Einn af fráfarandi eða fyrrverandi umdæmisstjórum og er hann jafnframt formaður ráðsins og nefnist Fjölumdæmisstjóri. Enginn má gegna embætti fjölumdæmisstjóra nema eitt starfstímabil. Hann má ekki endurkjósa. Framboð til embættis fjölumdæmisstjóra skal senda fjölumdæmisritara fyrir 15.febrúar ár hvert.
b. Starfandi umdæmisstjórar.
c. Starfandi varaumdæmisstjórar.
d. Alþjóðasamskiptastjóri (MDIRC).
e. Kynningarstjóri (MDPRC).
f. Unglingaskiptastjóri (MDYEC).
g. Fræðslustjóri (MDLDC).
h. Félagastjóri (MDMC)
i. Útbreiðslustjóri (MDEC)
j. Félaganefndarstjóri (MDRC)
k. Ritari
l. Gjaldkeri
Framboð til embætta samkvæmt lið d-j skal senda fjölumdæmisritara fyrir 15. febrúar ár hvert.
B. Geti fjölumdæmisstjóri ekki lokið kjörtímabili sínu skal heiðursráð fjölumdæmis tilnefna staðgengil fjölumdæmisstjóra úr sínum hópi.
6.gr.
Undir fjölumdæmisráð heyra fjármál Fjölumdæmis 109, samskiptin við Alþjóðasambandið, Norræna samstarfsráðið og Evrópu-Forum. Einnig yfirumsjón með unglingaskiptum. Ennfremur önnur skyld málefni og mál, sem fjölumdæmisþing úrskurðar að skuli vera sameiginleg fyrir Fjölumdæmi 109.
Ráðið getur skipað embættismenn og nefndir til að sinna sérstökum verkefnum, sem falla undir verkahring þess.
7.gr.
Fjölumdæmisstjóri boðar fundi í ráðinu. Fundi skal halda ef annar eða báðir umdæmisstjórar óska þess, en þó ekki sjaldnar en þrisvar sinnum á hverju starfsári. Einn fundanna skal halda er fjölumdæmisþing kemur saman. Atkvæðisrétt á fundum ráðsins hafa aðeins fjölumdæmisstjóri og starfandi umdæmisstjórar.
Kostnaður við fundi fjölumdæmisráðs skal greiddur úr fjölumdæmissjóði að svo miklu leyti sem hann er ekki gjaldkræfur úr sjóðum Alþjóðasambandsins.
8.gr.
Fjölumdæmisráði ber að framkvæma allar samþykktir, sem gerðar eru á fjölumdæmisþingi, enda brjóti þær ekki í bága við þessi lög né lög Alþjóðasambandsins.
9.gr.
Til ráðuneytis fjölumdæmisráði starfar heiðursráð, skipað öllum fyrrverandi umdæmisstjórum Fjölumdæmis 109. Fjölumdæmisstjóri, sem jafnframt er formaður heiðursráðsins, kallar saman fundi ráðsins. Heiðursráð starfar einnig sem kjörnefnd Fjölumdæmis 109.
10.gr.
Fjölumdæmisþing skal haldið ár hvert á tímabilinu 1.apríl til 31.maí strax að afloknum umdæmisþingum, á sama stað og um sama leyti.
UMDÆMIN
11.gr.
Umdæmisþing fer með æðsta vald í umdæminu með þeim takmörkunum, sem felast í lögum þessum svo og lögum og samþykktum Alþjóðasambandsins.
Umdæmisstjóri fer með yfirstjórn umdæmisins og ber ábyrgð gagnvart umdæmisþingi.
12.gr.
Umdæmisþing kýs umdæmisstjóra og varaumdæmisstjóra.
13.gr.
Umdæmisstjórn skipa: Starfandi umdæmisstjóri, fráfarandi umdæmisstjóri og varaumdæmisstjóri, sem allir skoðast sjálfkjörnir og ritari og gjaldkeri og svæðisstjórar, sem tilnefndir eru af umdæmisstjóra.
14.gr.
Umdæmisstjóri skipar formenn fastra nefnda. Hann getur einnig skipað nefndir til að sinna sérstökum verkefnum. Umdæmisstjóri skipar, eftir þörfum, fulltrúa til að vinna með sérstökum embættismönnum fjölumdæmisins. Æskilegt er að hafa í huga kjörtímabil samsvarandi embættismanna fjölumdæmis.
15.gr.
Umdæmisstjórn hefir ákvörðunarvald og framkvæmdavald í öllum málefnum umdæmisins, nema þar sem öðruvísi er ákveðið í lögum þessum og samþykktum og lögum og samþykktum Alþjóðasambandsins. Umdæmisstjórn skal framkvæma allar samþykktir, sem gerðar eru á umdæmisþingi, enda brjóti þær ekki í bága við þessi lög né lög og samþykktir Alþjóðasambandsins.
16.gr.
Umdæmisstjóri boðar fundi í umdæmisstjórn. Fundi skal halda eigi sjaldnar en þrisvar á starfsárinu.
17.gr.
Umdæmisstjóri skiptir umdæminu í svæði. Umdæmisstjóri skipar svæðisstjóra til eins árs í senn. Svæðisstjórar boða til funda, hver á sínu svæði, eins oft og þurfa þykir, en þó eigi sjaldnar en þrisvar á hverju starfsári. Á svæðisfundi skulu boðaðir formenn, ritarar og gjaldkerar allra Lionsklúbba á svæðinu, og aðrir, ef svæðisstjóri sér ástæðu til.
18.gr.
Fimm síðast starfandi umdæmisstjórar sitja í heiðursráði umdæmisins. Hlutverk heiðursráðsins er að vera umdæmisstjórn til ráðuneytis. Umdæmisstjóri er formaður ráðsins og boðar fundi þess. Heiðursráðið starfar jafnframt sem kjörnefnd umdæmisins. Uppástungum klúbbanna um varaumdæmisstjóra skal skila til kjörnefndar fyrir 15.febrúar ár hvert. Berist nefndinni engar uppástungur skal hún sjálf gera tillögur til umdæmisþings um kosninguna. Tillögum sem nefndinni berast, eða hún gerir sjálf skal hún skila til umdæmisstjóra fyrir l. mars ár hvert.
19.gr.
Umdæmisþing skal haldið ár hvert á tímabilinu 1.apríl til 31.maí á sama stað og um sama leyti og fjölumdæmisþing er haldið.
FJÁRMÁL
20. gr.
Fjölumdæmisþing tekur ákvörðun um fjármál Fjölumdæmis 109. Fjölumdæmisráð skal ár hvert gera fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og skal hún lögð fyrir fjölumdæmisþing til staðfestingar. Fjárhagsáætlunin skal afhent þingfulltrúum með öðrum gögnum í upphafi þings.
21. gr.
Fjölumdæmisráð fer með fjármálastjórn í umboði fjölumdæmisþings og ber ábyrgð gagnvart þinginu.
22.gr.
Undirstaða fjárhags Fjölumdæmisins eru gjöld klúbbanna. Í gjöldum klúbbanna er innifalið lögbundið gjald til Alþjóðasambandsins og gjöld til þess að standa straum af kostnaði við fjölumdæmið og umdæmin ( skrifstofuhald, fundi, ferðalög, tímaritið Lion o.fl.).
23. gr.
Fjölumdæmisstjóri og/eða umdæmisstjórar skulu samþykkja og árita alla reikninga fjölumdæmisins.
24 . gr.
Reikningsár fjölumdæmisins er frá 1. júlí til 30. júní. Endurskoðaðir reikningar umdæmisins skulu lagðir fyrir fjölumdæmisþing til umræðu og atkvæðagreiðslu.
25. gr.
Kjörnir skulu á fjölumdæmisþingi tveir endurskoðendur ársreikninga og tveir varaendurskoðendur.
FJÖLUMDÆMISÞING OG UMDÆMISÞING
26. gr.
Fjölumdæmisþing ákveður með tveggja ára fyrirvara hvar og hvenær fjölumdæmis- og umdæmisþing skuli haldin.
27. gr.
Fjölumdæmisráð / umdæmisstjórarnir undirbúa öll mál sem lögð skulu fyrir fjölumdæmisþing og/eða umdæmisþing. Þing skulu boðuð með eigi skemmri en 30 daga fyrirvara og skal í fundarboði greina stað og tíma, dagskrá svo og tillögur sem borist hafa. Skulu þeim fylgja umsagnir fjölumdæmisráðs/umdæmisstjórnar.
Mál og/eða tillögur, sem klúbbur og/eða klúbbar óska að séu rædd á umdæmisþingi/ fjölumdæmisþingi, skulu póstleggjast til umdæmisstjóra/formanns fjölumdæmisráðs eigi síðar en 45 dögum fyrir umdæmisþing/fjölumdæmisþing. Önnur mál en þau, sem undirbúin eru á þennan hátt, verða ekki tekin fyrir nema forseti þingsins heimili að þau séu borin upp og fái til þess samþykki meirihluta þingfulltrúa, þó getur umdæmisstjóri / fjölumdæmisráð hvenær sem er og án nokkurs fyrirvara borið upp mál á umdæmisþingi / fjölumdæmisþingi.
28. gr.
Fjölumdæmisþing felur ákveðnum Lionsklúbbi/klúbbum, sem til þess eru fúsir að sjá um undirbúning og skipulag fjölumdæmisþings og umdæmisþinga. Einnig er heimilt að fela fjölumdæmisráði þinghaldið. Öll framkvæmd þinghaldsins skal vera á ábyrgð þeirra aðila, sem takast þessa umsjón á hendur.
Umsjónaraðilinn leggi 2 árum fyrir þing fram drög að kostnaðaráætlun fyrir þingin samkvæmt þeim kröfum sem fjölumdæmisráð setur. Einu ári fyrir þing leggi umsjónaraðilinn fyrir fjölumdæmisráð sundurliðaða lokaáætlun um tekjur og gjöld þinghaldsins. Endanlegt úrskurðarvald um fjárhagsáætlun, skipulag og framkvæmd þinghaldsins er hjá fjölumdæmisstjórn.
29.gr.
Á umdæmisþingi skulu eftirtalin mál tekin fyrir og afgreidd:
Ársskýrsla umdæmisstjóra.
Kosning umdæmisstjóra og varaumdæmisstjóra.
Önnur mál sem löglega hafa verið fram borin.
30.gr.
Umdæmisþing tekur ákvörðun um öll mál, sem umdæmið varða og ekki brjóta í bág við lög þessi eða lög og samþykktir Alþjóðasambandsins.
31. gr.
Á fjölumdæmisþingi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir og afgreidd eftir því sem við á:
a. Ársskýrsla fjölumdæmisstjóra.
b. Endurskoðaðir reikningar fjölumdæmis 109
c. Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
d. Upphæð fjölumdæmisgjalda fyrir næsta starfsár.
e. Lagabreytingar.
f. Kosning til eins árs í embætti formanns fjölumdæmisráðs (fjölumdæmisstjóra).
g. Kosning alþjóðasamskiptastjóra til tveggja ára.
h. Kosning kynningarstjóra til tveggja ára.
i. Kosning unglingaskiptastjóra til þriggja ára.
j. Kosning fræðslustjóra til þriggja ára.
k. Kosning félagastjóra til þriggja ára.
l. Kosning útbreiðslustjóra til þriggja ára.
m. Kosning félaganefndarstjóra til þriggja ára.
n. Kosning stjórnanda (co-ordinators) Norðurlandaþjóðanna á Alþjóðaþingi.
o. Kosning ritara Norræna samstarfsráðsins (NSR).
p. Kosning alþjóðarstjórnarmanns.
q. Kosning ritara fjölumdæmisráðs til eins árs.
r. Kosning gjaldkera fjölumdæmisráðs til eins árs.
s. Kosning tveggja endurskoðenda og tveggja til vara.
t. Ákveðinn þingstaður og þingtími fjölumdæmisþings og umdæmisþinga næst- næsta ár.
u. Önnur mál, sem löglega hafa verið fram borin.
Ákvæði til bráðabirgða: Næsta kjörtímabil embætta samkvæmt liðum j-m er 2002-2003 og síðan til þriggja ára.
32.gr.
Umdæmisþingi stjórnar umdæmisstjóri eða sá/þeir sem hann tilnefnir. Fjölumdæmisþingi stjórnar fjölumdæmisstjóri eða sá/þeir sem hann tilnefnir.
Við atkvæðagreiðslur á þinginu hefir hver viðstaddur lögmætur fulltrúi eitt atkvæði. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í öllum málum, nema þar sem öðruvísi er ákveðið í lögum þessum. Enginn kjörinn fulltrúi getur fengið öðrum umboð til þess að fara með atkvæði sitt. Kjör umdæmisstjóra og varaumdæmisstjóra skal vera skriflegt. Kjör fjölumdæmisstjóra og (ef svo ber undir) fulltrúa til setu í stjórn Alþjóðasambandsins skal vera skriflegt, ef um fleiri en einn frambjóðanda til ofangreindra embætta er að ræða. Sá er rétt kjörinn, sem hlýtur eigi minna en helming greiddra atkvæða í skriflegri kosningu. Nái enginn því atkvæðamagni í fyrstu lotu skal kosið á nýjan leik um þá tvo menn sem flest atkvæði hlutu. Verði þá jöfn atkvæði skal hlutkesti ráða. Aðrar kosningar skulu fara fram með handauppréttingu, nema öðruvísi sé ákveðið af þingmeirihluta.
33. gr.
Úrdráttur úr fundargerð fjölumdæmisþings og umdæmisþinga, ásamt úrdrætti úr reikningum Fjölumdæmis 109 skal senda eigi síðar en 60 dögum eftir þinghald til Alþjóðasambandsins, fjölumdæmisstjóra, umdæmisstjóranna, formanna klúbbanna og fyrrverandi umdæmisstjóra.
KJÖRGENGI
34.gr.
Sérhver klúbbur, fullgiltur og skuldlaus við Alþjóðasambandið og fjölumdæmi 109, er skyldur til þess að senda að minnsta kosti einn fulltrúa á umdæmis- og fjölumdæmisþing og tilnefna jafnmarga til vara.
Hefur hver fulltrúi eitt atkvæði fyrir hverja tíu félaga eða meiri hluta þess fjölda eins og félagatalan er skráð í skjölum Alþjóðasambandsins á fyrsta degi síðasta mánaðar á undan þeim mánuði sem þing eru haldin.
Meirihluti sá sem hér er getið að framan telst fimm félagar eða fleiri. Sérhver fullgildur Lionsfélagi, þótt eigi sé hann kjörinn fulltrúi, á rétt á setu á umdæmis- og fjölumdæmisþingi sem áheyrnarfulltrúi.
35. gr.
Kjörgengur til embættis umdæmisstjóra er varaumdæmisstjóri. Forfallist varaumdæmisstjóri, skal kjósa í embættið og fer um kjörgengi svo sem fyrir er mælt í 36. gr. þessara laga.
36. gr.
Kjörgengur til embættis varaumdæmisstjóra er frambjóðandi tilnefndur af klúbbi sínum, eða meirihluta klúbba í umdæminu. Hann skal:
a) vera starfandi Lionsfélagi og hafa staðið í skilum við klúbb sinn, enda sé klúbbur hans einnig skuldlaus við Alþjóðasambandið og fjölumdæmi 109.
b) hafa lokið eða vera að ljúka kjörtímabili sínu, sem formaður klúbbs og sem stjórnarmaður í klúbbi eigi skemur en tvö ár.
c) hafa lokið eða vera að ljúka kjörtímabili sínu sem svæðisstjóri, umdæmisritari, eða umdæmisgjaldkeri.
Ekki má vera samtímis í ofangreindum embættum (b og c.liður), nema til komi undanþága frá Alþjóðastjórn.
37. gr.
Fjölumdæmi 109 gefur út tímarit sem nefnist LION. Ritstjóri ráðinn af fjölumdæmisstjórn og fjórir ritnefndarmenn annast ritstjórn þess. Tveir eru skipaðir af fjölumdæmisráði til tveggja ára, þannig að á hverju ári sé skipaður einn. Umdæmisstjórar skipa einn ritnefndarmann hvor til eins árs í senn.
Ritið, sem er viðurkennt af Alþjóðasambandinu og nýtur styrks úr sjóðum þess, skal koma út sex sinnum á ári, eða eftir því sem Alþjóðasambandið ákveður, með því alþjóðlega efni, sem tilskilið er hverju sinni.
Ritstjóri tímaritsins LION er jafnframt ábyrgðarmaður þess.
Fjölumdæmisstjórn er heimilt að semja við einstaklinga eða fyrirtæki um að taka að sér útgáfu LION.
38. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á fjölumdæmisþingi. Breytingartillögur skulu hafa borist með lögmætum hætti (sbr. 27.gr.) og skal geta þeirra í fundarboði til fjölumdæmisþings. Breytingartillaga telst því aðeins löglega samþykkt, að hún hljóti atkvæði eigi færri en 2/3 hluta viðstaddra lögmætra fulltrúa.