Saga klúbbsins

Lionsklúbbur Grundarfjarðar  1972-2007

 

                    Upphaf Lionsklúbba

Fyrsti og um leið elsti Lionsklúbburinn í heiminum  er í borginni Chicaco í Bandaríkjunum.  Stofnandi klúbbsins hét Melvin Jones, vel fjáður athafnamaður .  Hugsjón hans var sú , að vinna að bættum kjörum þeirra sem minna mega sín og eru hjálpar þurfi. Hann fékk nokkra menn til liðs við sig um stofun klúbbs sem hefði það að markmiði að vinna að mannúðar- menningar- og félagsmálum karla og kvenna. þetta var árið 1917 þessi fyrsti Lionsklúbbur fékk heitið "The Central Lionsclub of Chicago"

Ekki létu þeir félagar þar við sitja, en stofnuðu fleiri klúbba með sama markmiði að leiðarljósi og brátt kom að því að Lionsklúbbar voru stofnaðir í öðrum löndum og það margir klúbbar í hverju landi sem unnu að sama markmiði.

Lionsklúbbar innan hvers lands stofnuðu svokallað umdæmi með stjórn og formanni sem kallaður var umdæmisstjóri.  Ef Lionsklúbbar í landinu náðu ákveðnum fjölda urðu umdæmin fleiri og var þá kosinn yfirmaður umdæmanna "fjölumdæmisstjóri".

Alþjóða skrifstofa Lionsklúbba er í Oak Brook í Bandaríkjunum og greiðir hver klúbbur lágt gjald af hverjum félaga til þeirrar skrifstofu og einnig til skrifstofu fjölumdæmis í hverju landi fyrir sig en fá svo margvíslega þjónustu til baka.

 

                      Markmið Lionsklúbba

Allir Lionsklúbbar, hvar í heiminum sem þá er að finna, starfa eftir sömu siðareglum og markmiðum Lionsklúbba.

Markmið Lionsklúbba eru þessi:

            Að vekja og efla anda skilnings meðal þjóða. 

Að efla meginreglur heilbrigðs stjórnarfars  og borgararlegra dyggða. 

Að starfa af áhuga að aukinni velferð átthaganna á sviði félagsmála, menningar og almenns siðgæðis. 

Að tengja klúbbana böndum vináttu, góðs félagsanda og gagnkvæms skilnings. 

Að skapa vettfang fyrir frjálsar umræður um öll málefni sem almenning varða að því tilskyldu að ekki séu rædd meðal klúbbfélaga málefni stjórnmála né heldur trúarhópa.  

Að hvetja félagslynda menn til að þjóna byggðarlagi sínu án persónulegs ávinnings og hvetja til dugnaðar og eflingar siðgæðis í viðsiptum, iðnaði, opinberri starfsemi og einkarekstri.

 Markmiðin eiga við klúbbinn sjálfan og starfið.  Stjórn hvers einstaka klúbbs leggur áherslu á að hafa þessar reglur í heiðri.  Í fjölda klúbba er einhver ein grein markmiðanna lesin upp við lok hvers fundar.

 

                      Siðareglurnar

Siðareglurnar höfða til einstaklingsins frekar en félagsheildarinnar. Þær eru á þessa leið:

 
1. Líttu á starf þitt sem köllun.  Leistu það svo af hendi að þú ávinnir þér traust.
2.  Leitastu við að gera starf þitt árangursríkt.  Áskildu þér hæfilega umbun erfiðis þíns en reyndu ekki að hagnast með óréttmætum hætti.
3.  Láttu ekki ávinning þinn verða á annara kostnað.
4.  Vertu hollur meðbræðrum þínum og heiðarlegur gagnvart sjálfum þér.
5.  Vertu aldrei eigingjarn.Leiki vafi á réttmæti gerða þinna, breyttu þá við náunga þinn eins og þú vilt að hann breyti við þig.
6.  Gerðu vináttu að markmiði en ekki leið að marki.  Sönn vinátta krefst einskins í eigin þágu og má aldrei verða háð gagnkvæmum greiða.
7.  Ræktaðu samfélagsskyldur þínar.Vertu hollur þegn þjóðar og sveitarfélags bæði í orði og verki.
8.   Hjálpaðu meðbræðrum þínum í vanda Þeir sem um sárt eiga að binda þurfa hluttekningu, bágstaddir og minnimáttar stuðning.
9.  Vertu gætin í gagnrýni og örlátur á viðurkenningu.  Byggðu upp en rífðu ekki niður.

 

                      Lionsklúbbur Reykjavíkur  stofnaður

Ekki fór það svo að íslendingar fengu ekki veður af fjöldahreyfingunni sem Lionsklúbbarnir tilheyrðu.   Mun það hafa verið Magnús Kjaran stórkaupmaður sem fyrstur bar boðskap Lions til Íslands sem leiddi til stofnunar Lionsklúbbs Reykjavíkur 14.ágúst 1951 kl. 12 á hádegi á Hótel Borg.  Með stofnun klúbbsins var kjölurinn lagður að umfangsmiklu líknar og mannúðarmáli karla og kvenna á Íslandi, sem starfað hafa undir merki Lions allt fram á þennan dag.

12 menn stofnuðu klúbbinn og var Magnús Kjaran kosin formaður, Hersteinn Pálsson ritari og Guðbjartur Magnússon gjaldkeri.

Með stofnun Lionsklúbbs Reykjavíkur varð Ísland 32.þjóðlandið þar sem þessi félagsskapur starfaði

Hver stjórn lionsklúbba og embættismanna starfar í eitt ár, á þetta einnig við stjórnir umdæmanna og fjölumdæmanna.  Allt starf í Lionshreyfingunni er unnið í sjálfboðavinnu.  Starfsárið er frá 1.júlí til 30.júní næsta ár.

Á næstu árum voru stofnaðir margir klúbbar allt í kringum landið. Lionsklúbbur Stykkishólsm var stofnaður 26. febr 1967 fyrstur klúbba á Snæfellsnesi og nokkru síðar Lionsklúbbur Nesþinga Hellisandi.

 

                      Lionsklúbbur Grundarfjarðar stofnaður

Þegar stofnaður er klúbbur í einhverju byggðarlagi, þá er það venjulega Lionsklúbbur í næsta nágrenni sem það gerir og er þá nefndur móðurklúbbur hins nýja klúbbs.

Félagar úr Lionsklúbbi  Stykkishólms stofnuðu klúbbinn í Grundarfirði.  Unnu þeir að stofnuninni í samráði við heimamenn í Grundarfirði og umdæmisstjóra Lions.  Var 22 körlum boðið að gerast stofnfélagar.

Stofnfundur var síðan haldinn í safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju 28.jan 1972 kl. 21.00  Örn Forberg ritaði fundargerð.

Gestir fundarins voru Ásgeir Ólafsson umdæmisstjóri sem var boðið á þennan fund.  Eftirtaldir móðurklúbbsfélagar úr Lionsklúbbi Stykkishólmi voru mættir: Sigurður Ágústsson veghefilstjóri formaður klúbbsins í Stykkishólmi, Ingvar Ragnarsson, Leifur Kr.Jóhannesson og Valdimar Brynjólfsson.

Eftirtaldir félagar voru mættir á stofnfundinn og voru eftir það nefndir stofnfélagar: Halldór Finnsson, Örn Forberg, Jónas Gestsson, Ragnar Kristjánsson, Gunnar Kristjánsson, Sigurberg Árnason , Grímur Haraldsson, Karl H Björnsson, Ingólfur Þórarinsson, Ágúst Sigurjónsson, Júlíus Gestsson, Þorsteinn Bárðarsson,  Þorkell Gunnarsson, Njáll Gunnarsson, Bent Bryde, Árni M Emilsson.  Aðrir félagar er ekki gátu setið stofnfund voru Guðmundur Runólfsson, Hjálmar Gunnarsson, Hringur Hjörleifsson, Jens P Jensen, Soffanías Cecilsson og Þorkell Sigurðsson.

Halldór Finnsson setti fund og stjórnaði.  Ásgeir Ólafsson umdæmisstjóri lýsti ánægju sinni yfir stofnun klúbbsins, rakti meðal annars sögu Lions frá upphafi,markmið og tilgang en það er að þjóna öðrum.

Sigurður Ágústsson form. óskaði klúbbnum velfarnaðar, kom hann með tillögu að stjórn og varastjórn sem voru samþykktar. Stjórn hvers klúbbs situr í eitt ár.

Formaður Halldór Finnsson, ritari Örn Forberg og gjaldkeri.Ragnar Kristjánsson. Varastjórn: formaður  Jónas Gestsson, ritari Gunnar Kristjánsson og gjaldkeri Bent Bryde.

Nafnið Lionsklúbbur Grundarfjarðar var samþykkt og einnig lög fyrir klúbbinn.

 

Stofnskrárhátíð  Lionsklúbbs Grundarfjarðar var síðan haldin í Samkomuhúsi Grundarfjarðar 22.apríl 1972.  Mjög var vandað til þessarar hátíðar.  Matur var fenginn og þjónusta frá Hótel Borgarnesi var hann hinn lystilegasti og vel fram borinn. . Bæring Cecilsson var sendur suður í Borgarnes eftir víni til veislunnar. Á heimleiðinni er hann var staddur hjá Dal í Miklaholtshreppi velti Bæi bílnum sínum ,Bronco jeppa, á holóttum veginum. Brotnuðu þó nokkrar flöskur en Bæi skreið út úr bílnum og tók myndir af öllu saman .  Þetta óhapp skeði nokkru fyrir veisluna svo hægt var að senda annan bíl eftir veisluföngum en lengi á eftir var lykt af Bæja og auðvitað var brosað að þessu þar sem Bæring var stakur bindindismaður.

Um 110 manns, heimamenn og gestir sátu stofnskrárhátíðina og gerðu veisluföngum góð skil. Klúbbnum voru færðar góðar gjafir.  Umdæmisstjóri Ásgeir Ólafsson færði klúbbnum stofnskrá fyrir klúbbinn með nöfnum stofnfélaga einnig færði hann klúbbnum fánaborg með litlum fánum fyrir hvert land  þar sem Lionsklúbbar starfa.  Lionsklúbbur Stykkishólms færði klúbbnum fundarhamar og blómakörfu.  Lionsklúbbur Hellisands fundargerðabók. Lionsklúbbur Borgarness fundarbjöllu. Lionsklúbbur Akraness Gestabók, öllum þessum  gjöfum fylgdu hinar bestu árnaðaróskir, Skemmtiatriði fóru fram en síðan var dansað í lokin.

 

                       Starf, verkefni og fjáraflanir.

Í klúbbnum voru og eru enn,  kosnar starfsnefndir  til eins árs í senn en þær voru þessar:  Félaganefnd, ferðanefnd, verkefnanefnd og fjáröflunarnefnd, var oft hnippt í þá nefnd vegna fjáröflunar en ekki máttum við leggja fram fjármagn til verkefna úr eigin vasa það sem við söfnuðum inn fyrir sölu á blómum, ljósaperum, jóladagatölum og fleira, rann allt í líknarsjóð en úr honum var síðan úthlutað til  góðra málefna. Að umhverfismálum unnum við að fyrstu árin, fengum áburð  og  dreifðum fræi og áburði meðfram vegum inn við Mjósund í Framsveit, út við Búlandshöfða og víðar.

Mörg fyrstu árin hreinsuðum við rusl í þorpinu á vorin og meðfram vegum næst því  og þá ásamt kvenfélagskonum, var þetta ánægjulegt verkefni.

Á þessum fyrstu árum , sáum við um barnaskemmtun á jólum ásamt kvenfélagskonum .  Þriðja hvert haust hjálpuðust Lionsmenn, kvenfélagskonur og Rauði Krossinn að við matseld og framreiðslu á sameiginlegri skemmtun eldri borgara á Snæfellsnesi þegar hún var haldin í Grundarfirði.

Vorið 1975 tók Lionsklúbburinn að sér að selja og safna saman fermingarskeytum til fermingarbarna fyrir sanngjart verð, þessari þjónustu var vel tekið og hefur sú fjáröflun haft  mikið að segja vegna tekna í Líknarsjóð, og enn er safnað.  Þá hefir Lionsklúbburinn frá þessum tíma gefið hverju fermingarbarni nelliku eða rós í barminn á fermingardaginn.

Á  fyrstu árum Lionsklúbbsins  var árleg sala á flugeldum , ljósaperum og jóladagatölum, gengið var í hús og þessi varningur  boðin íbúunum til sölu og ekki má gleyma blómasölunni fyrir páska og konudag. Mörg þessara verkefna hafa síðan dagað uppi í tímanna rás af ýmsum ástæðum og í dag er einungis eftir af þessum gömlu fjáröflunum sala fermingarskeyta. En nýjar fjáraflanir hafa síðar litið dagsins ljós eins og súpusala á Góðri stund og jólatrjásala á jólaföstu.

Þau eru orðin ótalmörg verkefnin sem Líknarsjóður Lions hefur styrkt í gegnum tíðina og hér verður aðeins tæpt á nokkrum þeirra:

Frá árinu 1972 hefur það verið siður að færa föngum á Kvíabryggju bókagjöf fyrir hver jól. Á aðfangadag jóla fer stjórn klúbbsins ásamt sóknarpresti í heimsókn að Kvíabryggju um miðjan dag og þar fer fram  helgistund með föngum og starfsfólki, að helgistund lokinni er gjöfum útbýtt og síðan er sest að kaffiborði sem svignar undan kræsingum.

Þau eru ófá tækin sem Lionklúbbur Grundarfjarðar hefur lagt til heilbrigðismála Grundfirðinga bæði til Sjúkrahússins í Stykkishólmi sem og læknastofu í Grundarfirði og síðar Heilsugæslu Grundarfjarðar. Má þar nefna hjartalínurita, kirtlatökutæki og blóðrannsóknartæki. Tónlistarskóli, Grunnskóli, Dvalarheimilið Fellaskjól og Grundarfjarðarkirkja hafa notið framlaga úr líknarsjóði Lions. Fjölmörg þörf verkefni í þágu íbúanna hafa verið styrkt úr sjóðnum. Að telja þau öll upp yrði alltof langt mál. En með þessum framlögum hér heima sem og í alþjóðahjálparsjóð Lions hefur Lionsklúbbur Grundarfjarðar ekki látið sitt eftir liggja við að " Leggja lið".

Lionsklúbbur Grundarfjarðar hefur jafnan verið þátttakandi í sameiginlegum söfnunarátökum á vegum Lionshreyfingarinnar á Íslandi með sölu á rauðri fjöður þar sem  safnað hefur verið  til stórverkefna á landsvísu.

 

Félagsstarfið

 

Í upphafi var okkur Lionsnýliðunum ráðlagt af reyndum mönnum að, ásamt starfinu við að láta gott af okkkur leiða í þágu annara, ættum við að sinna félagslegu hliðinni og hafa að leiðarljósi að hafa gaman af starfinu og létta okkur upp ásamt okkar fólki.

Fundir voru lengi vel  tvisvar í mánuði frá september til maí en síðar einn fastur fundur og þá verkefni á móti. Fundarstaðir vorum margir en lengi vel  var fundað í safnaðarheimili kirkjunnar, en þegar við héldum fjölmennari samkomur fengum við inni á kaffistofu Soffanísasar, Samkomuhúsinu, Kaffi 59 og Krákunni. Hin síðari ár hefur fundarstaðurinn verið Fákasel félagsheimili hestamanna.

Lionsfélagar voru áminntir um stundvísi, að hafa Lionsmerkið í barmi en einn  af embættismönnum er siðameistari  og hann sér um að fundarhald gangi vel fram og hefur  hann vald til að sekta félagana fyrir nær hvaða yfirsjón sem er  ef svo ber undir. Félögum er skipt niður í flokkka í 5-6 í hverjum flokki  og oftast sér einn flokkurinn um dagskrá fundar. Fjöldi félaga í Lionsklúbbnum hafa verið á bilinu  20-30. Áður fyrr var nokkuð um gagnkvæmar heimóknir til klúbbanna í nágrenninu. Einu sinni á starfsárinu heimsækir okkur Umdæmisstjóri í svæði B sem okkar klúbbur tilheyrir ásamt klúbbum á svæðinu frá Hvalfjarðarbotni austur á Langanes. Umdæmisstjórinn  fræðir okkur klúbbfélaga um starfsemi Lions innanlands og utan og hvetur félaga til dáða. Er oft  tilhlökkunarefni af komu þeirra. Margir þeirra eru  eftirminnilegir , en þeirra minnistæðastur er mér Gunnar Ásgeirsson sem heimsótti okkar klúbb 25.sept. 1976  Hann sagði á lifandi hátt frá starfi sínu sem undæmisstjóri, sagði frá ferð sinni og fleiri íslendinga á alsherjarþing Lions í Honolulu þá um sumarið.  Hann sýndi okkur smáhluti og myndir af ferð sinni sem hann lét ganga á milli manna á meðan á frásögn hans stóð.  Að lokinni ferðasögunni flutti Gunnar ávarp til Lionsfélaga sem í senn var hvatning og ýmsar hugmyndir til félaganna um verkefni sem vert væri að vinna að.  Sagði hann að Lionsfélagar ættu ætíð að vera minnugir þess að þeir gengju heilir til skógar og því væri það þeirra að gefa nokkuð af sjálfum sér til þeirra sem minna mega sín"

Tekið upp úr fundargerð sem sr.Jón Þorsteinsson skráði.

  

Haustið 1972 byrjaði Örn Forber lestur sögunnar "Heitt sumar"  þetta var framhaldssaga þar sem hver félagi samdi einn kafla og las síðan upp á fundum.

 

Eitt haustið fengu Lionsfélagtar tvo rithöfunda þá Guðberg Bergsson og Jökul Jakobsson til að lesa upp úr verkum sínum.  Var íbúum Grundarfjarðar boðið að koma og hlýða á, en upplesturinn fór fram í samkomuhúsinu.

Alltaf var klifað á því á fundum að gera eitthvað til fjáröflunar.  Af þessu leiddi að Lionsfélagar auglýstu skemmtun í samkomuhúsinu 28.apríl 1973 og seldu inn en félagarnir skemmtu sjálfir með margskonar atriðum við mikinn fögnuð áhorfenda sem skemmtu sér vel, en  félagarnir þó mest sjálfir.  Þrátt fyrir það varð þetta fyrsta og eina skemmtunin með þessu fyrirkomulagi.

 

Þing Lions félaganna er haldið einu sinni á ári á ýmsum stöðum á landinu. þessi þing sækja verðandi stjórnir félaganna.

Fjölumdæmisstjórar og umdæmisstjórar ásamt eiginkonum fara á alsherjarþing Lions sem haldin eru ár hvert erlendis, Þeir Lionsfélagar í Grundarfirði sem hafa farið á þessi þing eru Gunnar Kristjánsson ásamt eiginkonu Jóhönnu H Halldórsdóttur, sem sótti alþjóðaþing Lions í Minniappolis sumarið 1993.  Gunnar var umdæmisstjóri 109B 1993-1994.

Hjónin Ragnar Kristjánsson og Þórdís Gunnarsdóttir fóru á alþjóðaþing  Lions ásamt fleiri íslendingum sem haldið var í Miami Florida um miðjan júní 1998.

Þeir félagar Lionsklúbbs Grundarfjarðar sem hafa verið svæðisstjórar eru

Halldór Finnsson        1975-1976

Lárus Guðmundsson 1984-1985

Gunnar Kristjánsson   1990-1991

Árni Halldórsson        2002-2003

Á vegum Lions var komið á unglingaskiptum milli íslenskra  Lionsklúbba og Lionsklúbba erlendis. Í mörg ár var Ingþór Haraldsson unglingaskiptastjóri.  Þeir unglingar úr Grundarfirði sem fóru sem skiptinemar voru.

1976 Halldór Páll Halldórsson til Danmerkur

1985 Ásthildur Elva Kristjánsdóttir til Þýskalands

1990 Halldóra Sverrisdóttir til Noregs

Einnig dvöldu unglingar frá öðrum löndum hjá félögum í Grundarfirði áður en þeir fóru í ungmennabúðir sem um langa hríð voru starfræktar í Kerlingarfjöllum.

 

Víkjum að upphafinu 16. maí  1972 komu félagar úr Lionsklúbbi Búðardals í heimsókn á fund hjá Lionsklúbbi Grundarfjarðar,   Einn af þeim var Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum. Hann færði okkur að gjöf frumsamið ljóð, Lionssöng sem í mörg ár var sunginn í upphafi funda. Formaður sem var um leið fundarstjóri skipaði  þá gjarna einhvern lagvissan félaga ti að vera forsöngvara.

 

Lions söngur.  Lag Öxar við ána,

                        Höfundur Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum

 

Lagið skal taka, létt skal nú syngja,

Ljósvakan tendra og gleðinnar hyr

Liona-vaka lífið skal yngja

leiðis skal njóta í rjúkandi byr.

 

Fram, fram frjálsir og reifir,

fram ,fram nú er okkar stund.

Hefjum fánann hærra.

Hyggjum að því stærra,

stefnum hátt með létta lund.

 

Dagurinn ljómar, dagsverkin bíða,

draumsýnir vaka og kalla til þín.

Dagskipan hljómar um fyllingu fríða

framtíðin minnir á verkefnin sín.

 

Fram, fram o.s.frv.

 

              Að ganga í Lion.

 

Lengst af voru Lionsklúbbarnir karlaklúbbar.

Árið 1987 var samþykkt breyting á starfsreglum Alþjóðasamtaka Lionsklúbba að konur gætu gengið í Lionsklúbba, til jafns við karla og hefðu þær sömu réttindi og karlar.  Áður höfðu víða á Íslandi  verið stofnaðir klúbbar sem konur gengu í og nefndust Lionessuklúbbar. Aldrei varð að stofnun Lionessuklúbbs í Grundarfirði. Einnig voru til barnaklúbbar svokallaðir Leoklúbbar.

Í Lionsblaði nr.240 apríl/maí 2007 skrifar Jimmi Ross alþjóðaforseti að" breyting sú sem þá var gerð væri þyngdar sinnar virði í gulli"  Einnig þetta." Konur hafa bætt Lionsklúbbana og hreyfinguna í heild ómetanlega, þær hafa fært klúbbum og umdæmum nýja hæfileika og stóraukna orku.  Þær hafa bjargað mörgum klúbbum frá hægu andláti og sett nýja stefnu í klúbbum sem voru stefnulaust á reki.  Án kvenna væri Lionshreyfingin ekki það félagslega afl sem við erum í dag."

 Undir þessi skrif er tekið heilshugar.

 

Á Lionsfundi 29. desember 1999 gengu 10 nýir félagar í Lionsklúbb Grundarfjarðar en þar af  voru 7 konur.  Þær voru Olga Einarsdóttir, Hulda Vilmundardóttir,Ingibjörg T Pálsdóttir, Jóna B Ragnarsdóttir, Ragnheiður Þórarinsdóttir, Unnur B Þórhallsdóttir og Elín Snorradóttir.  Síðan hafa fleiri konur gengið í klúbbinn.  Fyrsti kvenformaður Lionsklúbbsins var Hulda Vilmundadóttir 2003-2004.  Núverandi stjórn skipa Hulda Vilmundardóttir formaður

 Jóna B Ragnarsdóttir ritari og Þorkell Gunnar Þorkelsson gjaldkeri.

 

                      Viðurkenningar.     

 Þeir félagar Lionsklúbbs Grundarfjarðar sem klúbbfélagar hafa heiðrað og gert að Melvin Jones félögum eru eftirtaldir:

Allir stofnfélagar Lionsklúbbs Grundarfjarðar

 

03.03.1990    Soffanías Cecilsson

27.03.1993  Ragnar Kristjánsson

12.05.1993    Halldór Finnsson

29.12.1993    Guðmundur Runólfsson og Njáll Gunnarsson

 

 Þegar félagi er gerður að Melvin Jones félaga er greidd ákveðin föst upphæð í alþjóða hjálparsjóð  Lion sem kenndur er við Melvin Jones stofnanda Lionshreyfingarinnar  í Bandaríkjunu.  Melvin Jones félagi fær afhentan veggskjöld með Lionsmerkinu og áletrað eigin nafn ásamt með nöfnum alþjóða forseta og foresta hjálparsjóðsins.  Melvin Jones  viðurkenningin er æðsta heiðursmerki sem Lion veitir.

                   
                 Þessi mynd er tekinn við það tækifæri er Soffanías Cecilsson tók við Melvin Jones viðurkenningunni, fyrstur grundfirðinga.

                   

                   Hér eru þeir heiðursmenn Njáll Gunnarsson og Guðmundur Runólfsson að taka á móti Melvin Jones viðurkenningunni.

               

                         Fáni Lionsklúbbs Grundarfjarðar. 

Mikið hafði verið rætt um merki klúbbsins eða fána sem yrði í sama anda og aðrir Lionsklúbbar áttu.  Svo var það 13.nóveber 1974 að merki klúbbsins er samþykkt.  Einn félaginn Árni Emilsson var í góðum kunningsskap við Baltasar listmálara. bað Árni Baltasar að hanna merki eða fána klúbbsins sem hann og gerði með þeim ágætum að eftir er tekið og Lionsfélagar ánægðir með.   Með leyfi Lionsklúbbs Grundarfjarðar og Baltasars gerði sveitarfélagið það að sínu merki. En Baltasar gaf sína vinnu.

                          Labbi.

Örn Forberg fyrrum skólastjóri er félögum eftirminnilegur bæði sem ritari og siðameistari.  Hann var ákaflega formfastur sem ritari, skrifaði hann upp á sekúndu hvenær fundir byjuðu og enduðu.  Sem siðameistari lagði hann ríka áherslu á að félagar væru með merki Lions á fundum, það var 24.sept.1975 að hann kynnti ljónið Labba, sem er sparibaukur og óskaði eftir að fyrir það sem í hann safnaðist hjá félögum yrði keypt eðalvín til nota á ferðalögum Lionsmanna.

 

                      Með eiginkonum og fjölskyldu.

Í fundargerðabókum Lions má lesa að miðvikudaginn 22. janúar 1975 hafði verið fundur settur kl. 20:00 í matsal Hraðfrystihússins og eiginkonum boðið að sitja hann og var mæting góð. Til að sýna konunum hvað við vorum að gera á fundum var dagskrá framfylgi út í æsar , og stjórnaði Þorsteinn Bárðarson fundi af mikilli röggsemi eins og hans var von og vísa.

Soffanias Cecilsson flutti framsögur um fegrun staðarins. Siðameistari Örn Forberg skammtaði ræðumönnum þrjár mínútur til ræðuhalda, og passaði vel upp á réttan tíma.  Til máls tóku Stefán Helgason, Árni Emilsson , Þorsteinn Bárðarsson og Halldór Finnsson.

Guðmundur Runólfsson flutti kvæði eftir Davíð Stefánsson.

Á borðum var þorramatur sem gerð voru góð skil, og yfir borðum fluttu félagar smá tölur í léttum dúr.

Fundi var slitið kl. 21:15.

Fundarritari Karl H. Björnsson endar fundagerðina þannig : ,, Þessi fundur tókst eins og best varð á kosið. Skemmtun sem ekki gleymist."

Á hverjum vetri hafa síðan verið haldin konukvöld og kúttmagafundir þar sem fiskréttir eru frambornir og nú síðustu árin hafa einnig verið jólafundir en þessa stærri fundi  mæta félagar ásamt mökum en öðrum gestum er líka  boðið á þessa fundi.

Í þessu sambandi er vert að minnast á einn fund af mörgum sambærilegum.

2 . mars 1985 var konukvöld í Kaffistofu Soffaniasar Cecilssonar. Grímur Haraldsson formaður setti fund og stjórnaði. Eftir venjulegt upphaf fundar og að loknum öllum serimonium var Lionssöngurinn sunginn.

Lárus Guðmundsson svæðisstjóri flutti hvatningarræðu, lagði hann áherslu á að félagar ræktu skildur sínar, mættu vel og stundvíslega og tæki til máls á fundum.

Þá var komið að málunum. Á borðum voru heitir og kaldir sjávarréttir, einar 10-12 tegundir sem allar, að einni undanskilinni voru veiddar af bátum héðan og landað í Grundarfirði. Meðan borðað var fór fram  vísubotna keppni.

Konukvöldsnefndin hafði fengið Ingólf Þórarinnsson kennara  til að semja fyrri part. Allir tóku þátt í kepninni við að semja seinni part vísnanna.

Sigurvegarar voru Hulda og Soffi. Sigurberg Árnason og Helga Gunnarsdóttir voru   með bestu ljósbláu botnana.

Að endingu tróðu kokkar kvöldsins upp þeir Magnús Þór Sigmundsson og Rúnar Marvinsson og spiluðu á gítara og sungu við mikinn fögnuð gesta. Síðan var stíginn dans. Fundargerð þessa fundar ritaði Einar Sveinn Ólafsson.

 

Laugardagskvöld 7.maí 1988 fóru 15 Lionsmenn ásamt eiginkonum inn í Stykkishólm. Borðaður var góður matur á Hótelinu. Undir borðum afhenti formaðurinn Móses Geirmundsson hjónunum Huldu Vilmundardóttir og Soffaniasi Cecilssyni , styttu af ljóni, á hana eru letraðar þakkir frá Lionsklúbbi Grundarfjarðar fyrir ómetanlega hjálpsemi við starf klúbbsins.

Er þar átt við lán á bátum og skelverksmiðju þegar Lionsmenn hafa verið með fjáraflanir vegna skelróðra, og síðast en ekki síst lán á húsnæði fyrir skemmtisamkomur þegar félagarnir hafa haldið konukvöld og aðra hátíðir.

Hjónin Soffanías og Hulda þökkuðu innilega fyrir gjöfina , buðu þau Lionsmönnum ásamt eiginkonum í kaffi og koníak laugardagskvöldið 27. maí á heimili sínu, sem þakklætis vott fyrir gjöfina. Má með sanni segja að ekki brigðist þeim höfðingsskapurinn. Eftir borðhald var staldrað við á barnum og kannaðar gullnar veigar. Var þetta hin ánægjulegasta kvöldstund og lagt af stað heim kl. 24:00. Við sveitarmörkin í  Mjósundum var stoppað, og afhennti formaður Móses Geirmundsson , næsta formanni Gunnari Kristjánssyni formannsmerkið , en sú hefð hefur skapast að á vorsamkomum Lionsmanna fari fram stjórnarskipti.

                     Njáll Gunnarsson fundarritari.

 

     Lokafundir og stjórnarskipti Lions gátu verið við margvíslegar aðstæður.  Má nefna í Búlandshöfða á ferðalagi að Búðum þar sem síðasti fundur starfsárs var haldinn, uppi í Gili upp við Grundarrétt og marga fleiri staði mætti nefna þar sem hægt hefir verið að koma saman með fjölskyldunni og hafa gaman af.

     Svo var um lokafund starfsársins 1989-1990 sem var haldinn á Grundarkampi laugardaginn 19.maí kl.17.00 og var fjölskyldum Lionsfélaga boðið í grillveislu.

     Árni Halldórsson setti fundinn og skipaði félögum að hefja matseld.  Fyrst skyldi grilla pilsur handa börnunum, síðan grillaður matur handa eiginkonum og að lokum grillaður matur handa Lionsfélögum sjálfum.  Eftir að fólk hafði etið nægju sína var gengið til dagskrár.  Nýr félagi Stefán Ólafsson tekinn í félagið og konu hans færð blóm.  Síðan fóru fram formanna skipti en þá tók Kristján Guðmundsson við formannsmerkinu af Árna Halldórssyni.  Að dagskrá lokinni var farið í leiki og kveiktur varðeldur, upp úr kl. 20.00 fóru menn að tínast heim eftir skemmtilegan eftirmiðdag.

                             Tekið úr fundargerð Gísla Björnssonar ritara.

 

                      Ferðalög.

Eitt af áhugamálum klúbbsins voru ferðalög um landið og seinna til útlanda. Í ágúst 1972 var farið í ferð  á Strandir alla leið norður í Árneshrepp.  Félagar fóru þessa ferð margir og eiginkonur voru með í för.  Fararstjóri var Njáll Gunnarsson en þarna var hans heimasveit.  Gist var í Barnaskólanum í svefnpokaplássi.  Farið var um sveitina og Síldarverksmiðjurnar  á Djúpavík og í Ingólfsfirði eða það sem eftir var af þeim skoðaðar.  Farið norður að Krossaneslaug. Þeir sem voru svo forsjálir að hafa með sér sundföt fóru í laugina.  Eitt skemmtilegt atvik varð við laugina, Þorsteinn Bárðarson hafði ekki með sér sundskýlu en Elna einginkona hans var með sundbolinn sinn en fór ekki í laugina.  Þorsteinn fékk nú bolinn hjá Elnu tróð sér í hann og stakk sér í laugina, þetta var kátleg og eftirminnileg sjón..  Á heimleið var gist á Vogalandi í  Króksfjarðarnesi og farið í margskonar leiki, sveitin þar skoðuð og komið við á  Reykhólum en síðan haldið heim.

 

                      Utanlandsferðir

Í október 2003 var farin 10 daga ferð til Þýskalands, Gist var í Trier og Moselldalurinn skoðaður.  Einnig var gist í Freyburg, sem skoðaður var Svartiskógur en einnig farið yfir landamærin til Frakklands einn dag.

Í lok september 2005 fór klúbburinn í helgarferð  til Skotlands.  Flogið var til Glasgow, en gist á hóteli í Oban.  Skosku hálöndin skoðuð og margt fleira. Næsta ferð er fyrirhuguð til Póllands sumarið 2008.

 

       Litli Lionskórinn.

Árið 1988 var stofnaður sönghópur átta félaga innan Lions.  Var hann kallaður Litli Lionskórinn.  Í honum voru : Sturla Erlendsson, Gísli Björnsson, Gunnar Kristjánsson, Svanur Guðmundsson, Móses Geirmundsson, Eiður Örn Eiðsson, Kristján Guðmundsson og Pálmar Einarsson.  Söngstjóri var Friðrik V Stefánsson. Síðar bættust í kórinn Guðmundur Smári Guðmundsson, Lárus Guðmundsson, Hallgrímur Magnússon  og Skúli Skúlason

Kórinn starfaði á þriðja ár og spurðist hróður hans víða.  Hann kom og söng á 60 ára afmæli undirritaðs, söng í 70 ára afmæli Guðmundar Runólfssonar, einnig í Kolaportinu en þar stóðu Lionsmenn fyrir fiskmarkaði í fjáröflunarskyni og víðar var sungið svo sem á kúttmagakvöldi hjá Lionsklúbbnum Nirði á Hótel Sögu í Reykjavík svo eitthvað sé nefnt..

 

                      Lokaorð

Það er komið að lokum þessarar ritgerðar.  Ég hefi á stuttum tíma lesið yfir 300 fundargerðir klúbbsins og bókina  "Við leggjum lið"   Saga 40 ára Lionsstarfs á Íslandi eftir Svavar Gestsson 453 blaðsíður að stærð..'

Mér telst til að í  Lionsklúbbi Grundarfjarðar hafi gengið 114 félagar á 35 árum.  Margir hafa flutt burt úr byggðarlaginu, einnig hætt í klúbbnum, eftir mislangan tíma.

Lionsfélagar hafa látist á þessum árum og einnig eiginkonur félaga. 

Eg minnist alls þessa fólks með virðingu og þakklæti.  Ég óska Lionsklúbbi Grundarfjarðar alls velfarnaðar á komandi árum.

Einkunnarorð Lionshreyfingarinnar er á ensku ,We serve.  Á íslensku hafa þessi orð verið þýdd .Við þjónum eða við hjálpum.

Jón Þ Björnsson Lionsklúbbi Borgarness lagði til að þýðingin yrði "Við leggjum lið" og það nafn velur Svavar Gests á bók sína þegar hann skrifar sögu 40 ára starfs Lions á Íslandi.

 

                Skrifað í maí 2007

                        Njáll Gunnarsson.

 

 

 

Heimildir í Saga 40 ára Lions starfs á Íslandi " Við leggjum lið" eftir Svavar Gestss.

og Fundargerðir Lionsklúbbs Grundarfjarðar.